UNGT FÓLK SPYR
Af hverju leyfa foreldrar mínir mér aldrei að gera neitt skemmtilegt?
Vinir þínir bjóða þér í partí um helgina. Þú spyrð foreldra þína hvort þú megir fara en þau eru ákveðin og segja nei. Það kemur ekki á óvart. Þetta er sama svarið og síðast.
Í þessari grein
Af hverju segja foreldrar mínir alltaf nei?
Ef foreldrar þínir virðast alltaf segja nei þegar þú biður um að fá að gera eitthvað gæti þér liðið eins og þeir vilji ekki að þú gerir neitt skemmtilegt.
Unglingsstelpu, sem heitir Marie, leið þannig þegar hún fékk sinn fyrsta farsíma. Hún segir: „Pabbi setti fullt af reglum um það hvaða öpp ég mætti nota, hverja ég mætti tala við og hversu seint á kvöldin ég mætti tala í símann. Vinkonur mínar máttu gera það sem þær vildu.“
Til umhugsunar: Vildi pabbi Marie ekki leyfa henni að gera neitt skemmtilegt? Af hverju gæti hann hafa verið áhyggjufullur?
Prófaðu þetta: Ímyndaðu þér að þú sért foreldri og eigir ungling sem er nýbúinn að fá síma. Hvaða áhyggjur hefðir þú? Hvaða reglur myndir þú setja til að vernda barnið þitt? Hvað myndir þú segja við unglinginn ef hann segði að þú leyfðir honum ekki að gera neitt skemmtilegt?
„Pabbi minn sagði oft: ‚Settu þig í mín spor sem foreldri.‘ Þegar ég gerði það var auðveldara að skilja hvers vegna hann setti þessar reglur. Ef ég ætti börn myndi ég örugglega ætlast til þess sama af þeim eins og pabbi ætlast til af mér.“ – Tanya.
Hvernig get ég fengið foreldra mína til að segja já?
„Öskur og læti koma engu til leiðar og gera hvorki þér né foreldrum þínum gott heldur draga bara úr ykkur alla orku. Ef þú rífur kjaft við foreldrana lítur þú ekki út fyrir að vera nógu þroskaður til að fá meira frelsi.“ – Richard.
„Það er yfirleitt ástæða fyrir því að foreldrar mínir setja mér reglur. Þeir eru ekki að reyna að koma í veg fyrir að ég skemmti mér. Þeir vilja bara að ég skemmti mér án þess að lenda í vandræðum.“ – Ivy.
Meginregla Biblíunnar: „Heimskinginn gefur öllum tilfinningum lausan tauminn en vitur maður heldur ró sinni.“ – Orðskviðirnir 29:11.
„Ég reyndi á lúmskan hátt að fara í kringum reglurnar sem pabbi setti um símanotkun. Ég reyndi að finna leiðir til að senda vinum mínum skilaboð seint á kvöldin eða sækja öpp sem pabbi bannaði mér að hafa. En á endanum komst pabbi að hinu sanna og setti enn strangari reglur af því að hann treysti mér ekki lengur. Að reyna að beygja reglur er aldrei góð hugmynd.“ – Marie.
„Vertu þolinmóður. Kannski breyta foreldrar þínir ekki ákveðinni reglu strax. En ef þeir sjá að þú hlýðir reglum sem þeir hafa sett er trúlegt að þeir gefi þér meira frelsi.“ – Melinda.
Meginregla Biblíunnar: „Hlýðið foreldrum ykkar í öllu.“ – Kólossubréfið 3:20.
„Að suða í foreldrunum leysir ekki vandann og maður fær ekkert frekar það sem maður vill.“ – Natalie.
„Foreldrar vilja sjá að maður sýni góða dómgreind. Þegar ég tala við foreldra mína reyni ég að byggja rök mín á skynsemi frekar en tilfinningum. Þegar ég geri það næ ég miklu betri árangri.“ – Joseph.
Meginregla Biblíunnar: „Sýndu föður þínum og móður virðingu.“ – Efesusbréfið 6:2.