UNGT FÓLK SPYR
Hvernig get ég haft stjórn á tilfinningum mínum?
„Einn daginn líður mér mjög vel en næsta dag ömurlega. Það sem var ekkert mál í gær er mjög erfitt í dag.“ – Carissa.
Finnst þér eins og tilfinningar þínar sveiflist upp og niður? a Ef svo er getur verið gagnlegt fyrir þig að lesa þessa grein.
Það sem gerist
Tilfinningasveiflur eru algengar á kynþroskaskeiðinu. Jafnvel þegar maður nálgast tvítugsaldurinn getur það komið manni á óvart hve óstöðugar og óútreiknanlegar tilfinningarnar geta verið.
Ef tilfinningasveiflur þínar gera þig ráðvilltan skaltu muna að þær stafa oft af hormónabreytingum ásamt óöryggi og óvissu sem fylgir því að verða fullorðinn. En góður fréttirnar eru þær að þú getur lært að skilja tilfinningar þínar og takast á við þær.
Staðreyndir lífsins: Það er mikilvægt að læra að stjórna tilfinningum sínum á unga aldri því að þegar þú ert orðinn fullorðinn þarftu að geta gert það við ýmsar aðstæður.
Þrennt sem þú getur gert:
Tala. Biblían segir: „Vinur lætur aldrei af vináttu sinni, í andstreymi reynist hann sem bróðir.“ – Orðskviðirnir 17:17.
„Við eigum góðan fjölskylduvin sem ég kalla frænku. Hún hlustar alltaf vel á mig og ég á auðvelt með að tala við hana. Þegar ég sé hlutina í réttu ljósi er hún stolt af mér en ef ég skil ekki eitthvað rétt leiðréttir hún mig á þægilegan hátt.“ – Yolanda.
Ráð: Í stað þess að tala bara við jafnaldra þína – sem eiga kannski við sömu tilfinningasveiflur að stríða og þú – skaltu tala við foreldra þína eða einhvern fullorðinn sem þú treystir.
Skrifa. Í Biblíunni er sagt frá Job sem sagði örvæntingafullur: „Ég ætla að gefa kveinstöfum mínum lausan tauminn, tala af bitrum huga.“ (Jobsbók 10:1) Auk þess að tala við einhvern geturðu ,talað‘ með því að skrifa um tilfinningar þínar.
„Ég tek litla skrifblokk með mér hvert sem ég fer. Þegar eitthvað gerist sem kemur mér úr jafnvægi skrifa ég um það. Það hjálpar mér ótrúlega mikið að skrifa.“ – Iliana.
Ráð: Haltu dagbók svo þú getir skrifað um tilfinningar þínar, það sem hrindir þeim af stað og hvernig þú gætir tekist á við þær. Vinnublaðið sem fylgir þessari grein getur hjálpað þér.
Fara með bæn. Í Biblíunni segir: „Varpa áhyggjum þínum á Drottin, hann mun bera umhyggju fyrir þér, aldrei að eilífu lætur hann réttlátan mann hrasa“ – Sálmur 55:23.
„Ég bið stöðugt til Jehóva þegar mér líður illa. Mér léttir alltaf þegar ég er búinn að úthella hjarta mínu fyrir honum.“ – Jasmine.
Ráð: Þótt þú sért að glíma við kvíða skaltu hugsa um þrennt í lífi þínu sem þú getur verið þakklátur fyrir. Þegar þú biður til Jehóva skaltu biðja hann um hjálp – en þakkaðu honum líka fyrir það góða sem hann hefur gert fyrir þig.
a Þessi grein fjallar um tilfinningarót sem er algegnt hjá ungu fólki. Ef þú átt við geðhvarfasýki að stríða eða annars konar þunglyndi skaltu kynna þér greinina „Hvernig get ég tekist á við þunglyndi?“