UNGT FÓLK SPYR
Hvernig lít ég út?
Hvers vegna ætti mér ekki að standa á sama hverju ég klæðist? Vegna þess að föt gefa skilaboð. Hvaða skilaboð gefa fötin þín?
Algengur misskilningur og hvernig hægt er að forðast hann
Misskilningur 1: Að láta fjölmiðla ákveða hvernig þú lítur út.
„Stundum hrífst ég af nýrri tísku vegna þess að ég hef séð hana í svo mörgum auglýsingum“, segir ung stelpa sem heitir Theresa. „Þegar hugurinn er uppfullur af myndum af fólki sem fylgir ákveðinni tísku, getur verið erfitt að apa ekki eftir því.“
Auglýsingar hafa ekki bara áhrif á stelpur. „Strákar eru jafn móttækilegir fyrir áhrifum tískunnar“, segir í bókinni The Everything Guide to Raising Adolescent Boys. „Þeir eru ekki gamlir þegar þeir verða markhópur fyrir ákveðna vöru.“
Betri leið: Í Biblíunni segir: „Einfaldur maður trúir öllu en hygginn maður kann fótum sínum forráð.“ (Orðskviðirnir 14:15) Í samræmi við þessa meginreglu skaltu grandskoða það sem þú sérð í auglýsingum. Þegar þú sérð til dæmis auglýsingu þar sem því er haldið fram að þetta séu svölustu, flottustu eða kynþokkafyllstu fötin skaltu spyrja þig:
,Hver hagnast á því að ég fylgi þessari tísku?‘
,Við hvaða lífsstíl tengir það mig?‘
,Lýsir þessi lífsstíll mér og því sem ég samþykki?‘
Tískuráð: Skoðaðu vandlega auglýsingar og fjölmiðlaumfjöllun um tísku í eina viku. Hvaða lífstíl hampa þær? Eru lúmsk skilaboð sem er ætlað að láta þér finnast að þú verðir að fylgja ákveðinni tísku? „Það er gífurlegur þrýstingur til að vera fullkominn í útliti, klæðnaði og sýna ,fullkominn‘ líkamann,“ segir ung stúlka sem heitir Karen. Ungt fólk er auðveldur markhópur fyrir auglýsendur sem átta sig á þessu.
Misskilningur 2: .Að taka upp vinsælan stíl bara til að vera eins og hinir.
„Ef ákveðinn fatastíll er í tísku“, segir unglingur sem heitir Manuel, „þá verða allir að vera þannig. Ef þú fylgir honum ekki færðu á þig stimpil.“ Ung stúlka sem heitir Anna er sammála. Hún segir: „Þetta snýst meira um að falla í hópinn en sjálfa tískuna.“
Betri leið: Í Biblíunni segir: „Fylgið ekki háttsemi þessa heims.“ (Rómverjabréfið 12:2) Í samræmi við þetta ráð skaltu líta í fataskápinn þinn og spyrja sjálfan þig:
,Hvað hefur mest áhrif á fataval mitt?‘
,Hversu mikilvæg er merkjavara í mínum augum?‘
,Reyni ég að vekja hrifningu annarra með fatavali mínu?‘
Tískuráð: Frekar en að sjá bara tvo valkosti – nýjustu tísku (viðurkennt) eða úr tísku (og hafnað) – sjáðu þriðja valkostinn: sjálfstraust. Þeim mun sáttari sem þú ert við sjálfan þig þeim mun minni þörf hefurðu fyrir að falla í hópinn.
Misskilningur 3: Að hugsa ,því kynþokkafyllri því betra‘.
„Í sannleika sagt er stundum freistandi að vera í einhverju sem er aðeins of stutt, þröngt eða efnislítið“, viðurkennir stúlka að nafni Jennifer.
Betri leið: Í Biblíunni segir: „Skart ykkar sé ekki ytra skraut ... heldur hinn huldi maður hjartans“ (1. Pétursbréf 3:3, 4) Í samræmi við þetta ráð skaltu velta fyrir þér hvort sé meira aðlaðandi – fallegt útlit eða fallegir eiginleikar.
Tískuráð: Besti ,tísku fylgihluturinn‘ er hógværð. Það er satt að það er ekki vinsælt orð nú á dögum. En hugsaðu um þetta:
Hefurðu einhvern tíma talað við einhvern sem talar of mikið og bara um sjálfan sig? Það sorglega er að viðkomandi áttar sig líklega ekki á hvað hann er fráhrindandi.
Þegar þú klæðir þig ósæmilega ertu einmitt þannig. Fötin þín senda skilaboðin ,sjáðu mig‘ og þá lítur þú út fyrir að vera annað hvort óöruggur eða upptekinn af sjálfum þér – ef ekki bæði. Þú gætir líka litið út fyrir að vera sjúkur í athygli – jafnvel vafasama athygli.
Í stað þess að auglýsa eitthvað sem þú ert ekki ,að selja‘ skaltu prófa að vera hógvær. „Að vera hógvær þýðir ekki að þú þurfir að klæða þig eins og amma þín“, segir ung stúlka sem heitir Monica. „Það þýðir bara að maður virði sjálfan sig og aðra í kringum sig“.