Hoppa beint í efnið

UNGT FÓLK SPYR

Hvernig get ég lært að einbeita mér?

Hvernig get ég lært að einbeita mér?

 Hvers vegna get ég ekki einbeitt mér?

 „Ég les ekki bækur eins mikið og ég gerði áður. Ég nenni ekki einu sinni að lesa langar efnisgreinar lengur.“ – Elaine.

 „Ég hraðspóla myndbandi ef mér finnst það ganga hægt.“ – Miranda.

 „Ef ég er að gera eitthvað mikilvægt og það heyrist í símanum get ég ekki hugsað um annað en hver sé að senda mér skilaboð.“ – Jane.

 Getur tæknin gert okkur erfiðara fyrir að einbeita okkur? Sumir eru á því. „Eftir því sem við notum netið meira venjum við heilann við truflanir. Við tökum mjög fljótt og af skilvirkni við upplýsingum en höldum ekki einbeitingunni,“ skrifar rithöfundurinn og ráðgjafi í tímastjórnun, Nicholas Carr. a

 Skoðum þrenns konar aðstæður þar sem tæknin getur haft áhrif á einbeitingu okkar.

  •   Þegar við tölum við aðra. Ung kona að nafni Maria bendir á að „jafnvel þegar fólk talar við aðra augliti til auglitis er það að senda skilaboð, spila tölvuleiki eða athuga samfélagsmiðla í símanum sínum og er þess vegna ekki með fulla athygli á þeim sem það er að ræða við“.

  •   Í kennslustund. „Meirihluti nemenda segist nota snjalltæki í kennslustundum til að senda skilaboð, vafra á netinu eða skoða efni ótengt náminu,“ segir í bókinni Digital Kids.

  •   Við heimalærdóminn. „Mér finnst mjög erfitt að kíkja ekki á símann í hvert skipti sem heyrist í honum,“ segir Chris 22 ára. Heimavinna sem ætti að taka klukkutíma getur tekið þrjá tíma eða meira ef þú lætur snjalltæki trufla þig.

 Kjarni málsins: Ef þú leyfir tækninni að trufla þig og stjórna þér áttu erfitt með að einbeita þér.

Óeinbeittur hugur er eins og villtur hestur sem stjórnar þér.

 Hvernig er hægt að bæta einbeitinguna?

  •   Í samræðum. Í Biblíunni segir: „Hugsið ekki aðeins um ykkar eigin hag heldur einnig hag annarra.“ (Filippíbréfið 2:4) Sýndu að þér sé annt um aðra með því að hlusta af athygli á þá. Haltu augnasambandi og ekki leyfa snjalltækjum að fanga athygli þína.

     „Þegar þú talar við aðra skaltu standast freistinguna að vera að kíkja á símann. Sýndu þeim sem þú ert að tala við virðingu með því að gefa honum alla athygli þína.“ – Thomas

     TILLAGA: Þegar þú talar við aðra skaltu hugleiða þann möguleika að geyma símann þinn þar sem þú sérð hann ekki. Rannsóknir sýna að það geti jafnvel truflað einbeitinguna að hafa síma í augsýn því að hugurinn er þá viðbúinn truflun.

  •   Í kennslustund. Í Biblíunni segir: ,Gætið að hvernig þið hlustið.‘ (Lúkas 8:18) Ef það er leyft í skólanum þínum að vera á netinu í kennslustundum skaltu fylgja þessari meginreglu og sleppa því að athuga hvort þú hafir fengið skilaboð, spila tölvuleiki og vera að spjalla á netinu þegar þú ættir að vera með hugann við námið.

     „Reyndu að fylgjast betur með í kennslustundum. Skrifaðu glósur. Ef mögulegt er skaltu sitja framarlega í kennslustofunni til að forðast truflanir.“ – Karen.

     TILLAGA: Það er betra að skrifa glósur á blað en á tölvu. Rannsóknir sýna fram á að þannig verðir þú fyrir minni truflun og munir frekar það sem þú lærðir.

  •   Við heimalærdóminn. Í Biblíunni segir: „Aflaðu þér visku, aflaðu þér hygginda.“ (Orðskviðirnir 4:5) Það kallar á meira en að renna snöggt yfir efnið til að ná prófi.

     „Þegar ég vinn heimavinnuna set ég spjaldtölvuna á flugstillingu og einbeiti mér að því sem ég er að gera. Ég fylgist ekki með skilaboðum. Ef eitthvað kemur upp í hugann sem ég þarf að muna skrifa ég það niður.“ – Chris.

     TILLAGA: Gakktu úr skugga um að umhverfið stuðli að því að þú getir einbeitt þér. Hafðu hreint og snyrtilegt í kringum þig.

a Úr bókinni The Shallows—What the Internet Is Doing to Our Brains.