UNGT FÓLK SPYR
Hvernig get ég tekist á við þunglyndi?
Góð ráð sem geta hjálpað þér að líða miklu betur
Hvað myndir þú gera?
Lítum á eftirfarandi dæmi:
Jennifer hefur ekki ánægju af neinu lengur. Hún grætur stöðugt á hverjum degi að því er virðist að tilefnislausu. Hún forðast fólk og borðar varla nokkuð. Hún á erfitt með svefn og glímir við einbeitingarskort. „Hvað er eiginlega að mér? Get ég nokkurn tíma orðið ég sjálf aftur?“ hugsar Jennifer.
Mark hafði verið fyrirmyndar nemandi. En nú þolir hann ekki skólann og einkunnirnar hafa snarversnað. Hann hefur enga orku til að stunda íþróttir sem hann hafði gaman að áður. Vinir hans vita ekki hvað þeir eiga að halda. Foreldrar hans hafa áhyggjur. Er þetta bara erfitt tímabil – eða eitthvað meira?
Líður þér oft eins og Jennifer eða Mark? Ef svo er, hvað er þá til ráða? Þú gætir prófað eftirfarandi valkosti:
Reyndu að takast á við vandann sjálfur
Talaðu við einhvern fullorðinn sem þú treystir
Valkostur A gæti verið freistandi, sérstaklega ef þig langar ekki að tala við neinn. En er það skynsamlegt? Í Biblíunni segir: „Betri eru tveir en einn ... falli annar þeirra getur hinn reist félaga sinn á fætur en vei einstæðingnum sem fellur og enginn er til að reisa á fætur.“ – Prédikarinn 4:9, 10.
Segjum sem svo að þú sért villtur í hverfi þar sem mikið er um glæpi. Það er dimmt og ókunnugt fólk leynist á hverju horni. Hvað myndirðu gera? Þú gætir reynt að rata hjálparlaust. En væri ekki skynsamlegra að biðja einhvern sem þú treystir að hjálpa þér?
Þunglyndi er að mörgu leyti eins og þetta hættulega umhverfi. Vissulega getur tímabundinn dapurleiki liðið hjá af sjálfu sér. En ef ástandið dregst á langinn er best að leita sér hjálpar.
BIBLÍAN SEGIR: „Sérlyndur maður fer að eigin geðþótta og hafnar hverju hollráði.“ – Orðskviðirnir 18:1.
Kosturinn við valkost B er – ef þú talar við foreldra þína eða einhvern fullorðinn sem þú treystir – geturðu nýtt þér reynslu þess sem hefur náð stjórn á erfiðum tilfinningum.
Þú gætir sagt: „En foreldrar mínir hafa ekki hugmynd um hvernig það er að líða svona.“ En ertu alveg viss um það? Jafnvel þótt þau hafi tekist á við öðruvísi aðstæður sem unglingar en þú, þá gæti þeim hafa liðið eins og þér. Og þau gætu vitað um leið út úr vandanum.
BIBLÍAN SEGIR: „Er spekina að finna hjá öldungum og hyggindin hjá langlífum?“ – Jobsbók 12:12.
Málið er: Ef þú trúir foreldrum þínum fyrir áhyggjum þínum eða einhverjum fullorðnum sem þú treystir, er líklegra að þú fáir ráð sem virka.
En ef þú ert með undirliggjandi sjúkdóm?
Ef þú ert niðurdreginn á hverjum degi gæti verið um sjúkdóm að ræða sem þarf að meðhöndla, til dæmis alvarlegt þunglyndi.
Sjúkdómseinkenni alvarlegs þunglyndis hjá unglingum geta líkst algengum geðsveiflum unglinga, en geta verið sterkari og þrálátari. Ef depurðin er alvarleg og viðvarandi, hvernig væri þá að tala við foreldra þína um að leita til læknis?
BIBLÍAN SEGIR: „Ekki þurfa heilbrigðir læknis við heldur þeir sem sjúkir eru.“ – Matteus 9:12.
Ef þú greinist með alvarlegt þunglyndi er engin ástæða til að skammast sín. Það er algengt að ungt fólk sé með þunglyndi, og það er hægt að lækna það. Sannir vinir missa ekki álit á þér.
TILLAGA: Sýndu þolinmæði. Það tekur tíma að komast yfir þunglyndi og þú getur bæði átt von á góðum og slæmum dögum. a
Áætlun um að ná bata
Hvort sem þú þarfnast læknishjálpar eða ekki er ýmislegt sem þú getur gert til að takast á við þráláta depurð. Til dæmis geta regluleg hreyfing, holt fæði og góðar svefnvenjur komið jafnvægi á tilfinningar þínar. (Prédikarinn 4:6; 1. Tímóteusarbréf 4:8) Það gæti líka verið gott fyrir þig að halda dagbók til að skrifa niður tilfinningar þínar, markmið til að ná bata, afturkippi og sigra.
Hvort sem þú þjáist af alvarlegu þunglyndi eða ert að fara í gegnum erfitt tímabil tilfinningalega, skaltu hafa eftirfarandi í huga: Með því að þiggja hjálp frá öðrum og stíga ákveðin skref í átt að bata geturðu sigrast á þunglyndi.
Biblíuvers sem geta hjálpað
„Drottinn er nálægur þeim sem hafa sundurmarið hjarta, hann hjálpar þeim sem hafa sundurkraminn anda.“ – Sálmur 34:19.
„Varpa áhyggjum þínum á Drottin, hann mun bera umhyggju fyrir þér, aldrei að eilífu lætur hann réttlátan mann hrasa.“ – Sálmur 55:23.
„Því að ég, Drottinn, er Guð þinn, ég held í hægri hönd þína og segi við þig: ,Óttast eigi, ég bjarga þér.‘“ – Jesaja 41:13.
„Hafið því ekki áhyggjur af morgundeginum.“ – Matteus 6:34.
„Gerið í öllum hlutum óskir ykkar kunnar Guði ... og friður Guðs, sem er æðri öllum skilningi, mun varðveita hjörtu ykkar.“ – Filippíbréfið 4:6, 7.
a Ef þú færð sjálfsvígshugsanir skaltu tafarlaust leita hjálpar hjá traustum, fullorðnum aðila. Sjá frekari upplýsingar í greininni: „Er ástæða til að halda áfram að lifa?“ í Vaknið! maí-júní 2014.