UNGT FÓLK SPYR
Hvað geri ég ef vinur minn eða vinkona særir mig?
Það sem þú þarft að vita
Samskipti milli fólks eru aldrei án vandamála. Þar sem við erum ófullkomin gæti góður vinur – jafnvel besti vinur þinn eða vinkona – gert eða sagt eitthvað sem særir þig. Þú ert auðvitað líka ófullkominn. Hefurðu ekki sjálfur sært einhvern ef þú ert alveg sanngjarn? – Jakobsbréfið 3:2.
Með tilkomu Netsins er auðveldara að finnast maður vera særður. Unglingur sem heitir David segir til dæmis: „Þegar þú ert á Netinu og sérð myndir af vini þínum í hópi fólks, gætirðu velt því fyrir þér hvers vegna þér var ekki boðið. Og þá gætirðu orðið niðurdreginn ef þér finnst þú hafa verið svikinn.“
Þú getur tekist á við vandann.
Það sem þú getur gert
Gerðu sjálfsrannsókn. Í Biblíunni segir: „Vertu ekki auðreittur til reiði því að gremja hvílir í brjósti heimskra manna.“ – Prédikarinn 7:9.
„Stundum áttarðu þig síðar á því að það sem kom þér í uppnám er í raun og veru ekkert stórmál.“ – Alyssa.
Til umhugsunar. Hefurðu tilhneigingu til að vera of viðkvæmur? Gætirðu tamið þér meiri þolinmæði gagnvart ófullkomleika annarra? – Prédikarinn 7:21, 22.
Veltu fyrir þér hvaða kostir fylgja því að fyrirgefa. Í Biblíunni segir: „Það er viska ... að láta rangsleitni ekki á sig fá.“ – Orðskviðirnir 19:11.
„Jafnvel þegar þú hefur ástæðu til að kvarta er gott að fyrirgefa fúslega og það merkir að halda ekki áfram að minna viðkomandi á það sem hann gerði og krefjast fyrirgefningar í hvert sinn sem þú talar um það. Þegar þú fyrirgefur skaltu ekki minnast á málið aftur.“ – Mallory
Til umhugsunar: Er ástandið virkilega svo alvarlegt? Gætirðu fyrirgefið til að halda friðinn? – Kólossubréfið 3:13.
Hugsaðu um hinn aðilann. Í Biblíunni segir: „Lítið ekki aðeins á eigin hag heldur einnig annarra.“ – Filippíbréfið 2:4.
„Þegar kærleikur og virðing ríkir milli vina hefur maður ríka ástæðu til að leysa vandamál fljótt vegna þess að vináttan er dýrmæt og maður vill ekki glata henni.“ – Nicole.
Til umhugsunar: Gætirðu reynt að sjá hvað hinn aðilinn hefur til síns máls? – Filippíbréfið 2:3.
Kjarni málsins: Að vita hvernig maður á að bregðast við þegar einhver særir mann kemur sér vel þegar maður er orðinn fullorðinn. Hvernig væri að læra það núna?