Hoppa beint í efnið

UNGT FÓLK SPYR

Hvað ætti ég að vita um tölvuleiki?

Hvað ætti ég að vita um tölvuleiki?

 Próf

 Í Bandaríkjunum þar sem tölvuleikir velta milljörðum dollara ...

  1.   Hver er meðalaldur þeirra sem spila tölvuleiki?

    1.   18 ára.

    2.   30 ára.

  2.   Hvernig er hlutfallsleg skipting eftir kyni meðal þeirra sem spila tölvuleiki?

    1.   55 prósent karlar, 45 prósent konur.

    2.   15 prósent karlar, 85 prósent konur.

  3.   Í hvorum af þessum tveim hópum eru töluvert fleiri einstaklingar sem spila tölvuleiki?

    1.   Konur 18 ára og eldri.

    2.   Karlar 17 ára og yngri.

 Svör (byggt á tölum frá 2013)

  1.   B. 30 ára.

  2.   A. Konur eru 45 prósent þeirra sem spila tölvuleiki eða næstum helmingurinn.

  3.   A. Konur 18 ára og eldri eru 31 prósent þeirra sem spila tölvuleiki en strákar 17 ára og yngri eru 19 prósent þeirra.

 Þessi tölfræði gefur okkur hugmynd um hverjir spila tölvuleiki. En hún segir ekkert um áhrifin sem leikirnir geta haft á mann – hvort heldur góð eða slæm.

 Góð áhrif

 Hverjum af eftirfarandi staðhæfingum um tölvuleiki ertu sammála?

  •  „Þetta er skemmtileg leið til að styrkja tengslin við vini og ættingja.“ – Irene.

  •  „Þetta er þægileg leið til að hverfa frá veruleikanum.“ – Annette.

  •  „Maður verður sneggri í viðbrögðum.“ – Christopher.

  •  „Maður verður færari í að leysa úr vandamálum.“ – Amy.

  •  „Þeir örva hugann. Maður þarf að hugsa, skipuleggja og vera útsjónarsamur.“ – Anthony.

  •  „Sumir leikir fela í sér samvinnu við aðra.“ – Thomas.

  •  „Í sumum leikjum þarf maður að hreyfa sig og það hjálpar manni að komast í gott form.“ – Jael.

 Ertu sammála einhverjum þessara umsagna, eða jafnvel öllum? Tölvuleikir geta haft góð áhrif á huga og líkama. Þótt sumir tölvuleikir séu ekki til annars en að drepa tímann eða til að „hverfa frá veruleikanum“, eins og Annette orðar það, þarf það ekki alltaf að vera slæmt.

 ● Í Biblíunni segir að ,sérhver hlutur undir himninum hafi sinn tíma‘ og þá er meðal annars átt við afþreyingu. – Prédikarinn 3:1-4.

 Slæm áhrif

 Stela tölvuleikir tímanum frá þér?

 „Þegar ég byrja í tölvuleik á ég erfitt með að hætta. Ég segi alltaf við sjálfa mig að ég ætli bara að taka eitt borð enn. Áður en ég veit af eru tveir tímar horfnir og ég er búin að sitja allt of lengi fyrir framan tölvuna.“ – Annette.

 „Tölvuleikir geta gleypt tímann. Maður situr þarna í nokkra klukkutíma og finnst maður hafa áorkað einhverju af því að manni tókst að klára fimm leiki. En í rauninni hefur maður ekki áorkað nokkrum sköpuðum hlut.“ – Serena.

 Niðurstaða: Ef maður tapar peningum gæti maður fengið þá aftur. En sú er ekki raunin þegar tíminn hverfur frá manni. Tíminn er þannig séð verðmætari en peningar. Láttu ekkert stela honum frá þér!

 ● Biblían hvetur okkur til að vera vitur og ,nota hverja stund‘. – Kólossubréfið 4:5.

 Hafa tölvuleikir haft áhrif á huga þinn?

 „Í tölvuleikjum eru ,framdir‘ glæpir sem við liggur fangelsis- eða dauðadómur og þetta gerir fólk án þess að depla auga.“ – Seth.

 „Í mörgum leikjum á maður að sigra óvinina til að komast áfram. Í því felst oft að slátra þeim með grimmilegum hætti.“ – Annette.

 „Stundum er ótrúlegt hvað maður lætur út úr sér við vini sína þegar maður er í tölvuleik, eins og ,þú ert dauður‘ eða ,ég ætla að drepa þig‘.“ – Nathan.

 Niðurstaða: Forðastu leiki sem snúast um það sem Guð hatar, eins og ofbeldi, kynferðislegt siðleysi og dulspeki. – Galatabréfið 5:19-21; Efesusbréfið 5:10; 1. Jóhannesarbréf 2:15, 16.

 ● Í Biblíunni segir að Jehóva ‚hati þann sem elskar ofríki‘ – ekki aðeins þann sem fremur ofbeldisverk. (Sálmur 11:5) Val þitt á tölvuleikjum segir kannski ekki til um hvers konar manneskja þú átt eftir að verða en það gæti sagt ýmislegt um hvers konar manneskja þú ert nú þegar.

 Til umhugsunar: Samkvæmt bókinni Getting to Calm hafa „ofbeldisfullir tölvuleikir líklega meiri áhrif á hegðun ungs fólks en sjónvarp. Það horfir ekki bara á hetjuna fremja grimmdarverk – það er þessi hetja. Í tölvuleikjum er beitt þekktum kennsluaðferðum og þess vegna eru þeir í rauninni að kenna fólki að beita ofbeldi.“ – Samanber Jesaja 2:4.

  s Að uppgötva lífið á ný

 Margt ungt fólk hefur lært að sýna sjálfstjórn þegar tölvuleikir eiga í hlut. Skoðum tvö dæmi.

 „Áður var ég í tölvuleikjum langt fram á nótt og ég hugsaði: ,Ég þarf nú ekki nema fimm tíma svefn. Bara eitt borð enn.‘ En ég hef lært að hafa hemil á þessu. Núna lít ég á tölvuleiki sem skemmtilegt áhugamál sem ég get notið af og til. En allt er best í hófi.“ – Joseph.

 „Ég eyði töluvert minni tíma í tölvuleiki en áður og ég kem svo miklu í verk. Ég hef getað sinnt boðuninni betur, aðstoðað trúsystkini og meira að segja lært á hljóðfæri. Lífið er svo miklu meira en tölvuleikir.“ – David.

 ● Í Biblíunni segir að þroskaðir einstaklingar séu hófsamir í venjum. (1. Tímóteusarbréf 3:2, 11) Þeir njóta afþreyingar en þeir sýna þá sjálfstjórn að hætta þegar það er tímabært. – Efesusbréfið 5:10.

 Niðurstaða: Það getur verið ágætis afþreying að spila tölvuleiki ef maður heldur því innan skynsamlegra marka. En leyfðu ekki leikjunum að stjórna tíma þínum eða draga athyglina frá því sem er mikilvægt í lífinu. Sumir hugsa mikið um markmið sem þeir vilja ná í leikjunum. En væri ekki betra að beita kröftum sínum til að ná raunverulegum markmiðum í lífinu?