Orðaskýringar
Takk fyrir áhuga þinn á að fjalla um starfsemi Votta Jehóva. Þessum leiðbeiningum er ætlað að aðstoða við meðferð hugtaka sem trúfélag okkar notar. Ef þú hefur spurningar um viðfangsefni sem er ekki á listanum geturðu haft samband við deildarskrifstofu Votta Jehóva.
alþjóðamót. Þriggja daga mót skipulagt af Vottum Jehóva ætlað tilbeiðslu og biblíufræðslu. Slík mót eru haldin á nokkurra ára fresti í fyrirframákveðnum borgum um víða veröld. Vottum frá mismunandi löndum er boðið að vera gestir mótsins. Þessi mót eru opin almenningi og hlutverk þeirra er að hjálpa viðstöddum að rækta sambandið við Guð og stuðla að einingu votta Jehóva um allan heim. Alþjóðamót eru venjulega haldin í leiguhúsnæði og fara fram frá föstudegi til sunnudags. Dagskráin er ókeypis og engin fjársöfnun á sér stað.
Betel, Betelíti, Betelfjölskylda. „Betel“ er hebreskt orð sem merkir ‚hús Guðs‘. Heitið er notað um húsakynni sem Vottar Jehóva nota til að hafa umsjón með biblíutengdri starfsemi í ákveðnu landi eða á ákveðnu svæði. Vottar sem sinna þjónustu á þessum stöðum tilheyra trúarreglu og eru kallaðir „Betelítar“. Þeir þiggja ekki laun fyrir störf sín. Sem hópur eru þeir kallaðir „Betelfjölskylda“ því að þeir búa saman, tilbiðja Guð í sameiningu og vinna saman eins og fjölskylda. Orðið „Betelíti“ er ekki nafnbót eða heiðurstitill.
boðberi. Allir sem taka þátt í opinberri boðun í samstarfi við söfnuð Votta Jehóva. Kröfurnar sem gerðar eru til boðbera eru að þeir skilji og trúi grundvallarkenningum Biblíunnar og lifi í samræmi við meginreglur Guðs. Boðberar fá ekki greitt fyrir þátttöku í boðuninni og eru ekki á launum hjá viðkomandi söfnuði né neinu félagi sem tengist vottum Jehóva. Hugtakið er ekki titill.
boðun. Vísar til opinberrar boðunar Votta Jehóva í hlýðni við fyrirmæli Jesú um að boða ‚fagnaðarboðskapinn um ríkið um alla jörðina til að allar þjóðir fái að heyra hann‘. – Matteus 24:14; 28:19.
brautryðjandi. Hugtakið er notað um skírðan vott sem leitast við að verja ákveðnum fjölda klukkustunda í að boða trúna. Brautryðjendur nota 600 klukkustundir á ári í þessu starfi (50 klukkustundir á mánuði). Svonefndir aðstoðarbrautryðjendur verja ýmist 15 eða 30 klukkustundum í boðuninni í einn mánuð eða nokkra mánuði í senn. Brautryðjendur fá ekki greitt fyrir þjónustu sína og eru ekki launþegar viðkomandi safnaðar né neins félags sem tengist Vottum Jehóva. Flestir brautryðjendur vinna veraldleg störf til að sjá sér farborða. Hugtakið er ekki titill.
bróðir. Skírður karlkyns vottur Jehóva. Gjarnan notað sem ávarp (til dæmis „bróðir Sveinn“). Ekki notað sem titill.
bræðralag. Alheimssamfélag votta Jehóva (jafnt kvenna sem karla). – 1. Pétursbréf 5:9, neðanmáls.
deildarnefnd. Þegar deildarskrifstofa er stofnsett er deildarnefnd komið á laggirnar sem í eru þrír eða fleiri öldungar. Þeir eru útnefndir til að hafa umsjón með starfseminni í landinu eða löndunum sem heyra undir viðkomandi deildarskrifstofu.
deildarskrifstofa. Miðstöð deildarnefndar á tilteknu svæði sem styður við og hefur umsjón með starfsemi Votta Jehóva í viðkomandi landi eða löndum.
farandhirðir. Reyndur öldungur sem starfar undir handleiðslu deildarskrifstofunnar og fer (ásamt eiginkonu sinni ef hann er kvæntur) í reglubundnar heimsóknir til allra safnaða á farandsvæðinu. Þessar heimsóknir eiga sér venjulega stað tvisvar á ári. Auk þess að uppörva fólkið í söfnuðinum er hlutverk hans að uppörva öldungana og safnaðarþjónana og leiðbeina þeim. Farandhirðar veita hverjum söfnuði leiðbeiningar sem eru sniðnar að þörfum hans. Hugtakið er ekki nafnbót.
farandsvæði. Hópur safnaða Votta Jehóva innan ákveðinna landfræðilegra marka.
Gíleað, Gíleaðskólinn. Stytting á Biblíuskólanum Gíleað sem var stofnaður árið 1943 og var í fyrstu ætlað að þjálfa verðandi trúboða. Núna er þetta fimm mánaða sérhæft biblíunám ætlað vottum Jehóva sem boðið er í skólann.
Jehóva. Eiginnafn almáttugs Guðs og skaparans sem Biblían opinberar. (Sálmur 83:18) Ekki skal nota orðið „Jehóvi“ eða „Jehóvar“ um votta Jehóva.
Jesús Kristur. Einkasonur Guðs. (Jóhannes 3:16) Vottar Jehóva líta á Jesú Krist sem leiðtoga sinn og þeir leitast við að líkja eftir fordæmi hans og fara eftir kennslu hans. Vottarnir líta svo á að hann sé mesta mikilmenni sem hefur lifað og mesti vottur Jehóva. Hann er mikilvægasta persónan í fyrirætlun Jehóva Guðs um að bjarga mannkyninu. – Jesaja 9:6, 7; Opinberunarbókin 1:5.
minningarhátíð um dauða Krists. Árleg minningarathöfn um dauða Jesú Krists. Einnig nefnd kvöldmáltíð Drottins, síðasta kvöldmáltíðin eða minningarhátíð um dauða Jesú. Í augum Votta Jehóva er þetta mikilvægasti atburður ársins og jafnframt eina trúarhátíðin sem Jesús bauð fylgjendum sínum sérstaklega að halda. – Lúkas 22:19, 20.
mót. Sjá: alþjóðamót, svæðismót, umdæmismót.
mótshöll Votta Jehóva. Stórt samkomuhús í eigu Votta Jehóva notað fyrir stærri samkomur sem margir söfnuðir á ákveðnu svæði sækja.
Nýheimsþýðing Biblíunnar. Fullur titill á Hebresku ritningunum (Gamla testamentinu) og Grísku ritningunum (Nýja testamentinu) í þýðingu Votta Jehóva. Það má kalla hana Nýheimsþýðinguna.
opinber samkoma. Vikuleg samkoma sem venjulega er haldin um helgi. Á fyrri hluta þessarar samkomu er fluttur hálftíma opinber fyrirlestur sem er ætlaður öllum almenningi. Í kjölfarið fer venjulega fram nám í Varðturninum sem varir eina klukkustund. Sú námsstund fer fram með spurningum og svörum og er byggð á grein í námsútgáfu Varðturnsins. Eins og allar samkomur Votta Jehóva er aðgangur ókeypis, hvort heldur í persónu eða með fjarfundabúnaði, og engin fjársöfnun fer fram.
ríkissalur Votta Jehóva. Tilbeiðslustaður Votta Jehóva á staðnum sem er ýmist notaður af einum eða fleiri söfnuðum. Oftast er talað um hann sem „ríkissal“. Vinsamlega notaðu ekki orðið „kirkja“ í umfjölluninni.
safnaðarþjónn. Andlega þroskaður vottur sem hefur verið útnefndur til að aðstoða öldungana við verkefni sem ekki snúa beint að hjarðgæslu safnaðarins. Safnaðarþjónn þarf að uppfylla kröfurnar sem Biblían tiltekur í 1. Tímóteusarbréf 3:8–10, 12, 13 og Títusarbréfinu 2:6–8. Safnaðarþjónar annast mikilvægan stuðning við skipulagningu og hagnýt mál safnaðarins. Safnaðarþjónn þiggur ekki laun fyrir þjónustu sína og er hvorki á launum hjá söfnuðinum né neinu félagi sem tengist Vottum Jehóva. Flestir safnaðarþjónar vinna veraldleg störf til að sjá fyrir sér og fjölskyldum sínum. Sumir safnaðarþjónar verða með tímanum hæfir til að þjóna sem öldungar. Orðið er ekki heiðurstitill.
samkoma í miðri viku. Vikuleg samkoma sem er venjulega haldin að kvöldi virks dags. Samkoman nefnist Líf okkar og boðun og er í þrem hlutum. Tilgangur hennar er að hjálpa vottunum að verða betri þjónar Guðs. Eins og allar samkomur Votta Jehóva er aðgangur ókeypis, hvort sem mætt er á staðinn eða notaður er fjarfundabúnaður og engin fjársöfnun fer fram.
stjórnandi ráð Votta Jehóva. Lítill hópur öldunga sem hafa verið útnefndir til að annast andlegar þarfir votta Jehóva um allan heim. Þeir eiga beinan þátt í útgáfu biblíutengdra rita. Jafnvel þótt hið stjórnandi ráð fari með forystuna í að skipuleggja alþjóðastarfið lítur það alfarið á Jesú Krist sem leiðtoga Votta Jehóva. Skrifstofur ráðsins eru í aðalstöðvum Votta Jehóva í Warwick í New York.
svæðismót. Eins dags mót þar sem margir söfnuðir Votta Jehóva koma saman. Þessi mót eru haldin tvisvar á ári. Svæðismót eru öllum opin og þeim er ætlað að hvetja fólk til að rækta samband sitt við Guð. Á dagskránni koma fram tillögur sem hjálpa fólki á öllum aldri að hafa gagn af ráðum Biblíunnar. Einföld sýnidæmi lýsa því hvernig hægt er að heimfæra ráð Biblíunnar á líf sitt. Þessi mót fara oft fram í mótshöllum Votta Jehóva eða í leiguhúsnæði. Enn fremur er hægt að fylgjast með dagskránni á netinu. Þessi mót fara jafnan fram um helgar. Aðgangur er ókeypis og engin fjársöfnun fer fram.
systir. Kona eða stúlka sem hefur látið skírast sem vottur Jehóva. Gjarnan notað sem ávarp (til dæmis „systir Katrín“). Hugtakið er ekki titill.
söfnuður. Skipulagður hópur votta Jehóva sem kemur reglulega saman til tilbeiðslu. Öldungaráð hefur þá ábyrgð að stýra fjölbreyttri biblíufræðsludagskrá og veita söfnuðinum andlega leiðsögn, hvort sem það er á einstaklingsgrundvelli eða sem heild. Safnaðarsamkomur eru öllum opnar. Aðgangur er ókeypis og engin fjársöfnun fer fram.
trúboði. Skírður vottur Jehóva sem hefur verið útnefndur af hinu stjórnandi ráði Votta Jehóva til að þjóna einhvers staðar í heiminum. Trúboðar eru tilbúnir til að yfirgefa heimili sín og flytja til annars lands til að hjálpa til við útbreiðslu fagnaðarboðskaparins. – Matteus 24:14.
umdæmismót. Árlegt þriggja daga mót þar sem margir söfnuðir á sömu slóðum koma saman til að fá andlega uppörvun. Það er opið almenningi. Dagskráin inniheldur tillögur sem hjálpa áheyrendum á öllum aldri að hagnýta sér ráð Biblíunnar. Sýnidæmi, sem eru ýmist byggð á daglegu lífi eða frásögum Biblíunnar, hjálpa áheyrendum að heimfæra meginreglur Biblíunnar. Mótin eru oft haldin í sölum sem eru leigðir í þessum tilgangi, eins og íþróttasölum, leikvöngum og fundarsölum. Smærri umdæmismót eru gjarnan haldin í nálægum mótshöllum í eigu Votta Jehóva. Mótin fara jafnan fram frá föstudegi til sunnudags. Undanfarin ár hafa upptökur af dagskánni verið gerðar aðgengilegar í kjölfar mótsins. Eins og allar samkomur Votta Jehóva er aðgangur ókeypis og engin fjársöfnun fer fram.
Vaknið! Tímarit sem Vottar Jehóva gefa út og dreifa. Hóf göngu sína á ensku árið 1919 undir heitinu The Golden Age og fékk nafnið Consolation árið 1937. Frá og með tölublaðinu sem kom út 22. ágúst 1946 hefur það borið nafnið Vaknið! en það var valið til að leggja áherslu á að lesendur eigi að vera vakandi fyrir þýðingu heimsatburða. Tímaritið er eitt það útbreiddasta í heimi.
Varðturninn kunngerir ríki Jehóva. Fullur titill aðaltímarits Votta Jehóva. Ritið er oftast kallað Varðturninn. Nafnið vísar í hugmyndina að vera á verði til að sjá framvinduna á fyrirætlun Guðs. (Matteus 24:42) Almenn útgáfa Varðturnsins er afhent þeim sem sýna boðskapnum áhuga án endurgjalds. Námsútgáfa Varðturnsins er notuð við vikulegar umræður í söfnuðunum um heim allan. Varðturninn hefur verið gefinn út samfleytt á ensku síðan árið 1879. Hann er eitt útbreiddasta tímarit í heimi.
Vottar Jehóva. Kristið trúfélag sem tilbiður Jehóva Guð og hvetur til biblíunáms með margvíslegum boðunaraðferðum. Aðalmarkmiðið með biblíufræðslu þeirra er að kynna fagnaðarboðskapinn um ríki Guðs, eða stjórn hans. (Matteus 24:14) Nafnið aðgreinir þá frá öðrum trúfélögum og vísar bæði til þess að þeir eru fulltrúar Guðs og til þjónustuhlutverksins sem þeir hafa með höndum. Ekki er litið á einstakling sem vott Jehóva fyrr en hann hefur öðlast vissan skilning á grundvallarkenningum Biblíunnar, er hæfur til að taka þátt í að boða trúna með söfnuðinum og hefur látið skírast til tákns um að hann sé vígður Jehóva Guði. Þegar Vottarnir eru fyrst nefndir í grein skal kynna þá til sögunnar sem „Votta Jehóva“, en það er opinbert heiti safnaðarins. Styttingin „Vottar“ er viðeigandi. Athugið beygingu orðsins „vottur“ (ekki „votti“ í nefnifalli). – Jesaja 43:10.
öldungur. Andlega þroskaður karlkyns vottur sem hefur verið útnefndur til að kenna safnaðarmönnum og annast velferð þeirra. Öldungur verður að uppfylla kröfurnar sem eru útlistaðar í Biblíunni í 1. Tímóteusarbréfi 3:1–7; Títusarbréfinu 1:5–9; Jakobsbréfinu 3:17, 18 og 1. Pétursbréfi 5:2. Öldungar þiggja ekki laun fyrir störf sín, hvorki af söfnuðinum né nokkru öðru félagi sem tengist Vottum Jehóva. Flestir vinna þeir veraldleg störf til að sjá sér og fjölskyldum sínum farborða. Það er engin klerkastétt hjá Vottum Jehóva og engin aðgreining er milli leikra og lærðra. Orðið er hvorki titill né nafnbót.
ATHUGIÐ: Notið vinsamlega fullt heiti í umfjöllun ykkar þegar Vottar Jehóva eru fyrst nefndir. Sjá frekari upplýsingar í flettunni Vottar Jehóva.