Hoppa beint í efnið

BIBLÍAN BREYTIR LÍFI FÓLKS

„Ég var með fleiri spurningar en svör“

„Ég var með fleiri spurningar en svör“
  • Fæðingarár: 1976

  • Föðurland: Hondúras

  • Forsaga: Prestur

FORTÍÐ MÍN

 Ég fæddist í La Ceiba í Hondúras. Ég var yngstur fimm systkina og eini strákurinn. Ég var líka sá eini í fjölskyldunni sem var heyrnarlaus. Við fjölskyldan bjuggum í hættulegu hverfi og við vorum mjög fátæk. Lífið versnaði til muna þegar pabbi minn lést í vinnuslysi, en þá var ég fjögurra ára.

 Mamma gerði sitt besta til að annast okkur systkinin en hún átti sjaldnast fyrir nýjum fötum á mig. Mér var oft kalt þegar það rigndi því að ég átti engin hlý föt.

 Ég lærði hondúrskt táknmál (LESHO) meðan ég var að vaxa úr grasi, en það gerði mér kleift að eiga samskipti við annað heyrnarlaust fólk. Mamma mín og systur kunnu hins vegar ekki hondúrskt táknmál. Þær kunnu bara nokkur tákn og notuðu heimatilbúin tákn til að eiga samskipti við mig. En mamma mín elskaði mig og verndaði mig gegn hættum. Hún notaði þau fáu tákn sem hún kunni til að vara mig við löstum eins og reykingum og misnotkun áfengis. Ég er þakklátur fyrir að hafa verið laus við slíkt í æsku.

 Þegar ég var krakki sótti ég kaþólska kirkju með mömmu. En ég skildi ekkert og enginn túlkaði yfir á táknmál fyrir mig. Mér leiddist svo mikið að ég hætti að fara í kirkju þegar ég var tíu ára. Ég vildi samt sem áður vita meira um Guð.

 Árið 1999, þegar ég var 23 ára, hitti ég konu sem tilheyrði evangelískri kirkju og var frá Bandaríkjunum. Hún gaf mér biblíukennslu og kenndi mér amerískt táknmál (ASL). Mér líkaði svo mikið það sem ég lærði um Biblíuna að ég ákvað að gerast prestur. Ég fluttist því til Púertó Ríkó til að fara á kristið þjálfunarsetur fyrir heyrnarlausa. Þegar ég sneri aftur til La Ceiba árið 2002 stofnaði ég kirkju fyrir heyrnarlausa með hjálp vina minna. Einn þessara vina var Patricia en hún varð síðar meir eiginkona mín.

 Sem prestur kirkjunnar flutti ég prédikanir á LESHO, sýndi myndir af biblíusögum og lék þær eftir til að hjálpa heyrnarlausum að skilja þær. Ég heimsótti líka heyrnarlausa í nálægum bæjum til að hvetja þá og hjálpa þeim með vandamál þeirra. Ég fór meira að segja í trúboðsferð til Bandaríkjanna og Sambíu. En sannleikurinn var sá að ég vissi ekki svo mikið um Biblíuna. Ég gat aðeins sagt þeim það sem mér hafði verið sagt og það sem ég skildi út frá myndunum. Ég var með fleiri spurningar en svör.

 Dag einn fóru einhverjir í kirkjunni minni að dreifa lygum um mig. Þeir sögðu að ég væri drykkjurútur og hefði haldi fram hjá konunni minni. Ég var mjög svekktur og reiður. Stuttu síðar sögðum við Patricia skilið við kirkjuna.

HVERNIG BIBLÍAN BREYTTI LÍFI MÍNU

 Vottar Jehóva höfðu oft bankað upp á hjá okkur Patriciu en við hlustuðum aldrei á þá. En eftir að við yfirgáfum kirkjuna þáði Patricia biblíunám hjá hjónunum Thomas og Liccy. Það vakti undrun mína að þau kunnu táknmál þótt þau væru ekki heyrnarlaus. Ég tók því fljótlega þátt í náminu með Patriciu.

 Í nokkra mánuði kynntum við okkur Biblíuna með því að horfa á myndbönd á amerísku táknmáli. En við hættum biblíunáminu eftir að nokkrir vina okkar sökuðu votta Jehóva um að fylgja mönnum. Jafnvel þótt Thomas sýndi mér mjög skýrt fram á að vottar Jehóva fylgja ekki mennskum leiðtogum þá trúði ég honum ekki.

 Nokkrum mánuðum seinna varð Patricia mjög þunglynd. Hún bað því Guð um að senda votta Jehóva aftur til sín. Stuttu síðar heimsótti nágrannakona okkar sem var vottur Patriciu og sagðist myndu spyrja Liccy um að koma við. Liccy reyndist sannur vinur. Hún heimsótti Patriciu í hverri viku til að uppörva hana og kenna henni biblíusannindi. Ég hafði hins vegar enn mínar efasemdir um vottana.

 Árið 2012 voru vottar Jehóva með sérstakt átak í að dreifa bæklingnum Viltu vita svörin? á hondúrsku táknmáli. Liccy gaf okkur eintak af myndbandinu. Ég horfði á það og var steinhissa þegar ég komst að því að margar kenninganna sem ég hafði kennt, eins og kenningarnar um vítiseld og ódauðlega sál, er ekki að finna í Biblíunni.

 Viku síðar fór ég í ríkissalinn hjá vottum Jehóva til að tala við Thomas. Ég sagði honum að ég vildi kenna heyrnarlausum sannleikann um Biblíuna, en ekki sem vottur Jehóva. Ég vildi stofna mína eigin kirkju fyrir heyrnarlausa. Thomas hrósaði mér fyrir að hafa endurheimt ákafann en sýndi mér síðan Efesusbréfið 4:5. Þar er lögð áhersla á einingu sannkristna safnaðarins.

 Thomas gaf mér líka mynddiskinn Jehovah’s Witnesses – Faith in Action, Part 1: Out of Darkness á amerísku táknmáli. Í myndbandinu er sýnt hvernig hópur manna rannsakaði Biblíuna rækilega til að skilja sannleikann um grundvallarkenningar hennar. Þegar ég horfði á myndbandið gat ég sett mig í spor þessara manna. Ég var að leita að sannleikanum rétt eins og þeir. Myndbandið sannfærði mig um að vottarnir kenna sannleikann því að það sýndi fram á að þeir byggja kenningar sínar einungis á Biblíunni. Ég byrjaði því að kynna mér Biblíuna aftur og árið 2014 skírðumst við Patricia sem vottar Jehóva.

HVERNIG ÞAÐ HEFUR VERIÐ MÉR TIL GÓÐS

 Ég kann að meta söfnuð Votta Jehóva vegna þess að hann er siðferðilega hreinn, rétt eins og Guð. Tilbiðjendur hans eru hreinir í tali og í samskiptum sínum við aðra. Þeir eru friðsælir og uppörva hver annan. Vottarnir eru sameinaðir og kenna allir sömu kenningar Biblíunnar sama í hvaða landi þeir búa eða hvaða tungumál þeir tala.

 Ég hef haft ánægju af því að fá réttan skilning á því sem Biblían kennir. Ég hef til dæmis komist að raun um að Jehóva er hinn almáttugi Guð, alvaldur drottinn yfir allri jörðinni. Hann elskar bæði heyrnarlausa og þá sem geta heyrt. Ég er þakklátur fyrir að Guð skuli elska mig. Ég hef líka lært að jörðin mun verða að fallegri paradís og að við getum fengið að lifa að eilífu við fullkomna heilsu. Mikið hlakka ég til þess dags þegar það rætist.

 Okkur Patriciu finnst ánægjulegt að tala við annað heyrnarlaust fólk um Biblíuna. Við aðstoðum nú nokkra úr kirkjunni sem við tilheyrðum við biblíunám. En nú hef ég ekki lengur spurningar um það sem ég kenni líkt og þegar ég var prestur. Þegar ég kynnti mér Biblíuna með hjálp votta Jehóva fékk ég loksins svör við spurningum mínum.