Joseph í fylgd lögreglu
Ertu vottur Jehóva? Geturðu þá ímyndað þér hvernig það væri að boða fagnaðarboðskapinn hús úr húsi í fylgd lögreglu? Það fékk Joseph að reyna í Míkrónesíu árið 2017. Hann og þrír aðrir vottar tóku þátt í sérstöku boðunarátaki á afskekktum eyjum.
Um hádegisbil komu vottarnir fjórir til lítillar kóraleyju þar sem búa um 600 manns. Bæjarstjórinn tók vel á móti vottunum á ströndinni. Joseph segir: „Bæjarstjórinn sagði að lögreglan gæti keyrt okkur hús úr húsi. Við urðum steinhissa en afþökkuðum boðið vinsamlega. Við vildum heimsækja fólk eins og við gerðum vanalega þegar við förum hús úr húsi.“
Boðberarnir lögðu síðan af stað með það að marki að ná til sem flestra. „Fólkið var kurteist og sýndi boðskap okkar áhuga,“ sögðu vottarnir. „Fyrir vikið stoppuðum við lengur við hvert hús en við áttum von á.“
Seinna um daginn keyrði lögreglan fram hjá Joseph í tvígang. Þegar hún birtist í þriðja skiptið keyrði hún ekki fram hjá heldur stöðvaði. Lögregluþjónarnir spurðu Joseph hvort þeir ættu að keyra hann að húsunum sem hann átti eftir. Joseph afþakkaði það. „En nú kröfðust þeir þess og sögðu: ,Við keyrum þig að húsunum sem eru eftir því að þú hefur svo lítinn tíma.‘ Ég gat ekki afþakkað boð þeirra aftur vegna þess að ég átti þó nokkur hús eftir. Í hvert sinn sem við komum að húsi sögðu lögregluþjónarnir mér nafn fjölskyldunnar og að ef enginn kæmi til dyra þegar ég bankaði myndu þeir flauta til að láta húsráðandann vita af okkur.
„Með aðstoð þeirra gátum við bankað upp á hjá öllum þennan dag. Við dreifðum mörgum ritum og gerðum ráðstafanir til að koma aftur til þeirra sem höfðu áhuga.“
Lögregluþjónarnir sögðu Joseph að þeim hefði fundist „mjög gaman að breiða út fagnaðarboðskap“. Þegar vottarnir kvöddu um sólsetur stóðu lögregluþjónarnir á ströndinni og veifuðu brosandi með biblíutengt rit í hendi.